Læsi í leikskóla

Læsi í leikskóla

Á leikskólaárunum er lagður mikilvægur grunnur að frekara læsi, þar er málþroski ein helsta undirstaðan svo og samskipti og reynsla af fjölbreyttum mál- og lestrarathöfnum. Miðstöð skólaþróunar býður upp á fjölbreytt þróunarstarf tengt læsi í leikskólum þar sem áhersla er m.a. lögð á leik, vinnu með bækur og upplýsingatækni. 

Læsi í leikskóla ætti að vera samofið daglegu starfi og fara fram í gegnum leik. Í dagsins önn gefast mörg tækifæri til að vinna með málið til dæmis í gegnum umræður, hlutverkaleik, samverustundir, borðvinnu, skipulagt starf og lestur. Málrækt ætti að fléttast inn í allt starf leikskólans og gefa börnum tækifæri á að kynnast tungumálinu og möguleikum þess á fjölbreyttan hátt. Mikilvægt er að virkja áhugahvöt barnanna og gefa þeim næg tækifæri til að tjá sig og koma hugmyndum sínum á framfæri.

Markhópur:
Starfsfólk leikskóla; kennarar og leiðbeinendur.


Umfang:
Þróunarverkefni. Tíminn sem fer í verkefnið er metinn og ákveðinn í samráði við stjórnendur og starfsfólk viðkomandi skóla en reikna má með því að verkefnið sé að lágmarki til tveggja ára.


Lýsing:
Þróunarstarfið miðar að því að kenna kennurum að nýta betur tækifærin sem skapast í dagsins önn til að vinna með mál og læsi. Byggt er á hugmyndum um bernskulæsi það er að börn tileinki sér grundvallarfærni í læsi með því að læra af umhverfinu og samskiptum við aðra. Þátttakendur læra að styðja við læsisnám barna með því að skapa læsishvetjandi leikaðstæður og hvetja til fjölbreyttra samskipta í barnahópnum. Farið verður yfir hvernig hægt er að auðga leik barna með læsishvetjandi leikföngum og efnivið og þátttöku fullorðinna í leiknum. 

Mikil áhersla er lögð á vinnu með barnabækur, gildi barnabóka í leikskólastarfi og hvernig hægt er að nýta þær í vinnu með málrækt og læsi. Farið er yfir hvernig tengja má alla helstu þætti læsis inn í þemavinnu út frá barnabókum, það er tjáningu, hlustun, orðaforða, hljóðkerfisvitund, málnotkun og ritun. Lögð er áhersla á að tengja starfið við námskrá skólans og vinna á skapandi hátt út frá námsviðunum með leik og áhugahvöt barnanna að leiðarljósi. 

Ef skólar hafa áhuga á upplýsingatækni í bland við læsi má einnig fjalla um hægt er að nýta snjalltæki sem verkfæri í skapandi vinnu með málrækt og læsi í leikskóla.


 Markmið, að þátttakendur:

  • auki þekkingu sína á bernskulæsi
  • dýpki skilning sinn á mikilvægi leiksins fyrir þróun læsi
  • auki færni sína í að skapa aðstæður fyrir læsishvetjandi leik
  • öðlist leikni í að nýta umhverfið og samskipti til málörvunar
  • dýpki þekkingu sína á gildi barnabóka í leikskólastarfi
  • öðlist leikni í að nýta barnabækur til málörvunar
  • læri að búa til kennsluáætlanir byggðar á barnabókum
  • kynni sér ýmis smáforrit sem nýta má til málörvunar og læsiskennslu
  • læri að nýta snjalltæki sem kennslutækilært að nýta snjalltæki á opinn og skapandi hátt til að vinna að markmiðum í námskrá

 Auk þess er lögð áhersla á:

  • á að kennarar fái tækifæri til að ígrunda eigin kennslu og hlutverk kennarans í leik og daglegu starfi
  • að kennarar fái tækifæri til að vinna saman, miðla hugmyndum, ræða saman og þróa skólastarfið

Fyrirkomulag:

Verkefnið er lagað að þörfum hvers skóla og getur náð yfir lengri eða skemmri tíma. Haldnir eru fræðslu- og vinnufundi með kennurum og öðru starfsfólki og samráðsfundi með stjórnendum/læsisteymi. Fundir með læsisteymi eru haldnir u.þ.b. mánaðarlega og haldið er utan um vinnuferlið með fundargerðum